Körfubolti

Vafasamar ákvarðanir þjálfara

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jack Tayor.
Jack Tayor. Mynd/Heimasíða Grinnell College
Annað tímabilið í röð er unglingsdrengurinn Jack Taylor á allra vörum í íþróttaheiminum vestanhafs. Á dögunum varð hann fyrsti körfuknattleiksmaðurinn til að skora yfir 100 stig í annað skiptið á háskólaferli sínum.

Taylor, sem spilar með skólaliði Grinnell háskólans í Iowa, skoraði 109 stig í 173-123 sigri á Crossroad háskólanum í Minnesota. Á síðustu leiktíð skoraði hann 138 stig í leik með liði sínu.

Óhætt er að segja að stigaskor Taylor hafi fengið mikla athygli. Meðal annars komst hann í fréttirnar í Sportscenter á íþróttasjónvarpsstöðinni ESPN auk þess sem fólk getur slegið „Jack Taylor“ og „109 points“ í leitarvél til að sjá hvers lags umfjöllun skorið hefur fengið.

138 stiga leikurinn í heild sinni


Fæstar fréttirnar kafa þó dýpra ofan í kjölinn en að segja frá stigaskorinu og leikmanninum sem eðli málsins samkvæmt hlýtur að vera ótrúlega efnilegur. Íþróttafréttamaður CBS vestanhafs ákvað þó að skoða málið náðar og ræða meðal annars við þjálfara háskólaliðs Grinnell.

Þjálfari Crossroad skólans, A.J. Carson, fékk boð um að spila leik við Grinnell fyrir 1400 dollara eða jafnvirði um 170 þúsund íslenskra króna. Báðir skólarnir eru litlir og körfuboltaliðin ekki sterk í stóra samhenginu. Þó er töluverður getumunur á liðum skólanna tveggja en ein deild skilur liðin að. Bæði eiga í erfiðleikum með að skipuleggja áhugaverða leiki.

Carson tók því fegins hendi að fá leik gegn Grinnell auk fjárins fyrir að aka í fjóra klukkutíma á milli fylkja. Á hann runnu þó tvær grímur þegar hann las fréttir þess efnis að fyrrnefndur Taylor hefði skorað 138 stig í einum leiknum gegn skóla af svipuðu getustigi og Crossroad.

„Ég er ekki viss um að ég hefði sagt já hefði ég vitað út á hvað leikur þeirra gekk,“ segir Carson.

Fréttamaður CBS, Gregg Doyel, bendir á að Grinnell hafi ekki alltaf lagt leiki sína upp á þennan hátt, þ.e. að vinna að því hörðum höndum að einn leikmaður skori fáránlega mikið. Liðið hafi verið þekkt fyrir hátt stigaskor, raunar hafi liðið undantekningalítið verið það stigahæsta í sinni deild undanfarna áratugi, og leikmenn liðsins hlaupi úr sér lungun. Þegar þjálfari liðsins, David Arseneault, sé með bók til sölu grípi hann hins vegar til þess ráðs að koma sér og liðinu á forsíður blaðanna.

Arsenault hefur þjálfað Grinnell liðið frá árinu 1989. Liðið vakti fyrst athygli út fyrir fylkismörkin þegar Jeff Clement, leikmaður liðsins, skoraði 77 stig í einum leik. Af hverju gerðist það 1998? Fréttamaður CBS telur svarið liggja í því að á þeim tíma var Arseneault að vinna í því að koma bók sinni, „The System“, á framfæri.

Þrettán ár liðu frá því Clement var á forsíðum blaðanna þar til annar leikmaður liðsins, Griffin Lentsch, skoraði 89 stig gegn slökum andstæðingi. Viti menn. Á sama tíma var Arseneault með bók í vinnslu þar sem hann þurfti að leita til annarra þjálfara eftir aðstoð. Þá kom athyglin sér vel.

Á síðasta tímabili var svo komið að Taylor að skora stigin 138. Í kjölfarið kom önnur bók Arseneault út í ágúst síðastliðnum. Þremur mánuðum síðar skoraði Taylor 71 stig í leik en það vakti enga sérstaka athygli. Tveimur dögum síðar mættu leikmenn Crossroad háskólans í heimsókn og var slátrað.

Taylor skaut í hvert einasta skipti sem hann fékk boltann. Hann spilaði litla vörn heldur færði sig framar á völlinn um leið og andstæðingurinn var kominn í námunda við teiginn. Hann skoraði 49 stig í röð fyrir lið sitt á kafla og skaut oft þrisvar í sömu sókninni. Skotnýtingin var betri en í 138 stig leiknum og fóru meðal annars 50 prósent af þriggja stiga skotunum rétta leið.

Andstæðingurinn var sérstaklega vængbrotinn þennan dag. Aðeins níu leikmenn voru á skýrslu og ljóst að leikurinn yrði erfiður. Kjörið tækifæri fyrir Arseneault að láta Taylor skjóta, og skjóta, skrifar Gregg Doyel, íþróttafréttamaður CBS, sem greinilega kann ekki að meta þjálfaraaðferðir Arseneault. Þjálfarinn sver hins vegar af sér allar sakir.

„Við erum að reyna að vinna deildina okkar. Við erum að reyna að vera stigahæsta liðið,“ segir Arseneault. „Ég trúi því að besta leið okkar til þess að vinna deildina sé að okkar besti leikmaður finni fjölina sína.“

Doyel hefur hins vegar horft á upptöku af leiknum og er ósáttur við það sem hann sér. Á einu augnabliki tók liðsfélagi Taylor sóknarfrákast. Enginn var á milli hans og körfunnar og því auðvelt sniðskot framundan. Þrátt fyrir það virtist leikmaðurinn vera eitt spurningamerki um hvað hann ætti að gera við boltann. Allt þar til hann sá Taylor koma á hlaupunum, sendi boltann til hans og við bættust tvö stig.

Grein Doyel á vef CBS má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×