Fótbolti

Messi heim til Argentínu í meðferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/AFP
Lionel Messi er á heimleið. Hann spilar ekki fleiri leiki með Barcelona á árinu og á morgun flýgur hann heim til Argentínu til að fá meðferð við meiðslunum sem hafa hrjáð hann í vetur.

Lionel Messi meiddist aftan í læri í leik á móti Real Betis 10. nóvember síðastliðinn og hefur ekkert spilað með Barcelona-liðinu síðan. Messi hafði fram að því skorað 14 mörk í 16 leikjum í öllum keppnum.

Barcelona segir að endurhæfingin gangi vel í frétt inn á heimasíðu sinni en Messi hefur ekki verið líkur sjálfum sér síðan að hann meiddist fyrst í september. Það er búist við að Messi spili ekki aftur með Börsungum fyrr en um miðjan janúarmánuð.

Læknar frá Barcelona munu koma til Argentínu í desember og fylgjast með gangi mála í meðferðinni hjá Messi. Framundan er HM-ár en margir eru á því að skortur á heimsmeistaratitli gæti staðið í vegið fyrir því að Messi verði kallaðir sá besti frá upphafi.

Messi mun því örugglega taka sér sinn tíma til að losna alveg við meiðslin en það gengur svo sem vel hjá Barcelona án hans þótt að liðið hafi tapað fyrir Ajax í Meistaradeildinni í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×