Fótbolti

Sportspjallið: Guðni og Rúnar ræða Króatíuleikinn

Þeir eiga að baki 183 A-landsleiki samanlagt og vita um hvað þeir eru að tala. Guðni Bergsson og Rúnar Kristinsson ræða landsleik Íslands og Króatíu við Kolbein Tuma Daðason í Sportspjallinu þessa vikuna.

Landsleikjahæsti leikmaður karlaliðsins, Rúnar Kristinsson, spilaði aldrei betur en í stóru leikjunum. Hver man ekki eftir frammistöðu Rúnars í baráttunni við Zinedine Zidane og aðra Frakka í 1-1 jafnteflinu á Laugardalsvelli? Aftur lék Rúnar listir sýnar í 3-2 tapinu á St. Denis svo ekki sé talað um 2-0 sigurinn á Ítalíu.

Rúnar, sem í dag þjálfar karlalið KR í knattspyrnu, útskýrir meðal annars hvers vegna honum gekk svo vel gegn bestu liðunum.

Guðni Bergsson spilaði 80 landsleiki á ferli sínum og skoraði eitt „glæsilegt“ mark í heimasigri á Ungverjum. Hann er án nokkurs vafa einn besti varnarmaður sem Ísland hefur alið og nýtir þá reynslu sína til að rýna í varnarleik íslenska liðsins.

Guðni og Rúnar eru frekar bjartsýnir en svartsýnir fyrir leikina gegn Króötum. Þeir útskýra hvers vegna svo er í Sportspjallinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×