Körfubolti

51 stigs tap hjá Herði Axel og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. Mynd/Daníel
Hörður Axel Vilhjálmsson og félagar í Valladolid töpuðu stórt á móti Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Valencia-liðið vann leikinn á endanum með 51 stigi, 108-57.

Hörður Axel spilaði í 29 mínútur í leiknum og var með 5 stig og 3 stoðsendingar en hann hitti úr 2 af 5 skotum og tapaði 4 boltum. Enginn í Valladolid-liðinu spilaði meira en Hörður í kvöld.

Valencia vann fyrsta leikhlutann 26-8 og var síðan 27 stigum yfir í hálfleik, 48-21.

Valladolid náði ekki að fylgja eftir frábærum sigri liðsins á Cajasol um síðustu helgi en liðið hefur tapað þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu.

Hörður Axel hefur skorað 7 stig og gefið 1,5 stoðsendingar að meðaltali á 26,8 mínútum í þessum fyrstu fjórum umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×