Innlent

Stefán Blackburn neitar sök

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Stefán Blackburn mætti einn sakborninga til fyrirtökunnar í dag.
Stefán Blackburn mætti einn sakborninga til fyrirtökunnar í dag. Mynd/Daníel
Fyrirtaka fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í máli ákæruvaldsins gegn Stefáni Loga Sívertssyni, Stefáni Blackburn og þremur öðrum mönnum. Stefán Blackburn mætti einn sakborninga.

Í fyrirtökunni tók Stefán Blackburn afstöðu til ákæru sem sameinuð var Stokkseyrarmálinu svokallaða. Í ákærunni er Stefán Blackburn ákærður fyrir líkamsárás fyrir utan skemmtistaðinn Faktorý sem og líkamsárás af gáleysi með því að hafa verið ökumaður bifreiðar sem ekið var á ofsahraða og lent í árekstri sem varð til þess að bíllinn sem hann ók á valt og ökumaður hans hlaut mörg rifbeinsbrot og áverka á lunga. Hann sagðist að öðru leyti neita sök í öllum liðum og bar fyrir sig minnisleysi.

Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður og verjandi Stefáns Loga, lagði fram bókun þar sem hann skoraði á ákæruvaldið að leggja fram ýmis gögn sem hann telur vanta í málið, svo sem orðrétt endurrit lögregluskýrslna af bæði sakborningum og vitnum, íslenskar þýðingar á niðurstöðum og beiðnum DNA rannsókna. Þá óskaði verjandinn eftir frumgögnum frá öllum símafyrirtækjum vegna rannsóknar á símanotkun málsaðila, sem og aðstöðu hjá lögreglu til að horfa á hljóð- eða myndbönd af af ákærðu og öllum vitnum sem gáfu skýrslu vegna ákæranna.

Aðalmeðferð í málinu mun fara fram dagana 9.-11. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×