Körfubolti

Íslendingaliðinu gæti verið vísað úr deildinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hlynur, Ægir og Jakob Örn í rauðum búningum Sundsvall Dragons.
Hlynur, Ægir og Jakob Örn í rauðum búningum Sundsvall Dragons. Mynd/Heimasíða Sundsvall Dragons
Körfuknattleiksfélagið Sundsvall Dragons, sem Jakob Örn Sigurðarson, Hlynur Bæringsson og Ægir Þór Steinarsson leika með, á í miklum fjárhagslegum erfiðleikum.

Forsvarsmenn sænska félagsins hafa þrjá mánuði til stefnu til þess að koma fjárhagnum á gott ról. Annars fær liðið ekki þátttökurétt í deild þeirra bestu í Svíþjóð á næstu leiktíð.

„Verði einhverjar útistandandi skuldir þá verður umsókninni um keppnisleyfi hafnað,“ segir Mats Carlson, forseti sænska körfuknattleikssambandsins við staðarblaðið í Sundsvall í dag.

Félagið hefur gert samning við bæjaryfirvöld í Sundsvall um útleigu á íþróttahöll félagsins. Reiknað er með að félagið fái jafnvirði tæplega fjögurra milljóna króna í gegnum þann samning. Skuldir félagsins eru þó taldar nema um fjórfaldri þeirri upphæð.

Sigurður Hjörleifsson, umboðsmaður og faðir Jakobs Arnar og umboðsmaður Hlyns, segist við Sundsvall Tidning ekki hafa orðið var við að erfiðleikarnir hafi haft áhrif á leikmennina tvo. Ljóst sé þó að ástandið skapi vissan óróleika.

Alex Wesby, stjörnuleikmaður Drekanna, æfði ekki með liðinu í gærkvöldi. Hvorki umboðsmaður Wesby né forsvarsmenn Sundsvall hafa viljað staðfesta hvers vegna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×