Körfubolti

Jakob yfir tuttugu stigin í þriðja leiknum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson.
Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson. Mynd/Valli
Sundsvall Dragons liðið hélt sigurgöngu sinni áfram í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld þegar liðið vann tíu stiga útisigur á eco Örebro, 90-80.

Drekarnir töpuðu fyrsta leik tímabilsins en hafa síðan unnið fjóra síðustu leiki sína og eru komnir upp í þriðja sæti deildarinnar.

Jakob Örn Sigurðarson var með 20 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar í sigrinum í kvöld en þetta var þriðji leikurinn í röð þar sem íslenski bakvörðurinn brýtur tuttugu stiga múrinn.

Hlynur Bæringsson var með 10 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar og Ægir Þór Steinarsson bætti við 8 stigum, 4 fráköstum og 4 stoðsendingum á 23 mínútum. Ægir og Jakob gáfu flestar stoðsendingar hjá liðinu og Hlynur tók flest fráköst.

Sigur Sundsvall Dragons var nokkuð öruggur en liðið vann þrjá fyrstu leikhlutana og var átta stigum yfir í hálfleik, 42-34.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×