Körfubolti

56 íslensk stig dugðu ekki Drekunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Mynd/Daníel
Fjögurra leikja sigurganga Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta endaði í kvöld þegar liðið tapaði með fimm stigum á heimavelli á móti Borås Basket, 104-109. Borås Basket er búið að vinna alla sex leiki sína í vetur.

Hlynur Bæringsson var frábær en hann skoraði 24 stig, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar en hann var næstatkvæðamestur á eftir Tom Lidén sem skoraði 25 stig.

Jakob Örn Sigurðarson skoraði 20 stig og hann er því búinn að skora yfir tuttugu stig í fjórum síðustu leikjum Drekanna.

Ægir Þór Steinarsson átti líka fínan leik enn hann var með 12 stig og 6 stoðsendingar á þeim 30 mínútum sem hann spilaði í kvöld. Íslensku landsliðsmennirnir voru því með 56 stig saman í þessum leik.

Borås Basket var 58-53 yfir í hálfleik en Sundsvall Dragons vann fyrstu þrjár mínútur seinni hálfleiksins 8-2 og komst í 61-60. Hlynur kom síðan Sundsvall í 65-62 eftir stoðsendingu frá Ægi en þá kom slæmur kafli og átta stig í röð frá Borås-mönnum.

Sundsvall náði öðrum flottum spretti á lokasprettinum og Jakob kom Drekunum yfir í 99-98 með þriggja stiga körfu þegar 100 sekúndur voru til leikslok. Aftur tókst Borås-liðinu hinsvegar að komast strax aftur yfir og að lokum tryggja sér sjötta sigurinn í röð.

Borås er annað af tveimur ósigruðum deildarinnar en hitt er Södertälje Kings sem vann sinn sjöunda leik í röð í kvöld. Drekarnir eru í 3. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×