Körfubolti

Helena með á ný en Miskolc tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Daníel
Helena Sverrisdóttir skoraði sex stig á 18 mínútum þegar DVTK Miskolc tapaði 61-57 á útivelli á móti slóvakíska liðinu Piestanske Cajky í Mið-Evrópu deildinni í körfubolta í kvöld.

Helena lék þarna á nýjan leik eftir að misst úr æfingar og leik vegna kálfameiðsla. Helena missti af leik á móti ungverska liðinu SBK Samorín um síðustu helgi og sá leikur tapaðist 54-60.

Bandaríski miðherjinn Rebecca Tobin var atkvæðamest hjá Miskolc-liðinu í dag en hún var með 18 stig og 12 fráköst. Brittainey Raven skoraði 10 stig. Helena hitti aðeins úr 2 af 7 skotum sínum og 1 af 4 vítum en hún tók 2 fráköst og gaf 1 stoðsendingu á félaga sína.

Helena var ekki í byrjunarliði Miskolic enda að koma aftur inn í liðið eftir að hafa misst úr vegna meiðsla á kálfa. Hún var róleg í fyrsta leikhlutanum og Miskolic var 17-19 undir efir hann.

Helena átti mjög góða innkomu í annan leikhluta þegar hún kom inn þegar lið hennar var sjö stigum undir, 17-24. Helena skoraði sex stig á síðustu átta mínútum leikhlutans og Miskolic var þremur stigum yfir í hálfleik, 31-28, eftir 14-4 sprett.

Helena náði ekki að bæta við stigum í seinni hálfleiknum og Miskolc sá á eftir sigrinum á lokamínútunum. Piestanske Cajky var 51-55 undir þegar þrjár mínútur voru eftir en vann lokakaflann 10-2 og tryggði sér sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×