Bíó og sjónvarp

Sagður hafa hætt við vegna óánægju aðdáenda

Charle Hunnam og Dakota Johnson áttu að fara með hlutverk Greys og Ana­stasiu Steele.
Charle Hunnam og Dakota Johnson áttu að fara með hlutverk Greys og Ana­stasiu Steele. Nordicphotos/Getty
Breski leikarinn Charlie Hunnam mun ekki fara með hlutverk milljarðamæringsins Christians Grey í kvikmynd byggðri á metsölubókinni Fimmtíu gráir skuggar. Í byrjun september var tilkynnt um að ­Hunnam og Dakota Johnson færu með hlutverk Greys og Ana­stasiu Steele. Nú þarf Universal hins vegar að finna nýjan Grey.

Fjölmiðlar hið vestra hafa mikið velt sér upp úr brotthvarfi Hunnams, en skýringin sem gefin var fyrir brotthvarfi hans var sú að tökur á myndinni stönguðust á við tökur á sjónvarpsþáttunum Sons of Anarchy. Fjölmiðlar vilja þó meina að önnur ástæða liggi að baki enda hefur hvorug tökuáætlunin breyst frá því að gengið var frá samningum.

Líklegt þykir að leikarinn hafi hætt við eftir holskeflu gagnrýnisradda, bæði frá aðdáendum Hunnams sem og aðdáendum bókanna. Aðrir telja að Universal, sem framleiðir myndina, hafi rift samningum við Hunnam vegna þess að hann þótti ekki líklegur til að geta borið myndina uppi ásamt hinni óreyndu leikkonu Dakota Johnson.

Hver svo sem hin raunverulega ástæða reynist vera er ljóst að Universal þarf að hafa hraðar hendur við að finna staðgengil Hunnams því tökur á myndinni eiga að hefjast í nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×