Fótbolti

Balotelli tryggði AC Milan jafntefli í uppbótartíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson
Kolbeinn Sigþórsson Mynd/NordicPhotos/Getty
Kolbeinn Sigþórsson lék allan leikinn í kvöld þegar Ajax var hársbreidd frá því að vinna ítalska stórliðið AC Milan í leik liðanna í H-riðli Meistaradeildar Evrópu. Mario Balotelli tryggði AC Milan 1-1 jafntefli með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Ajax steinlá 4-0 fyrir Barcelona í fyrsta leiknum sínum í riðlakeppninni og þurfti því nauðsynlega á sigri á halda í kvöld. AC Milan vann hinsvegar sinn leik í fyrstu umferðinni.

Það leit út fyrir að Stefano Denswil væri að tryggja Ajax sinn fyrsta sigur í Meistaradeildinni í vetur þegar hann skoraði laglegt skallamark eftir hornspyrnu á 90. mínútu leiksins. Varnarmenn AC Milan voru uppteknir af Kolbeini á nærstöng þegar Denswil kom á ferðinni og skallaði boltann í netið.

AC Milan reyndi allt til þess að jafna í lokin og liðið fékk loksins vítaspyrnu þegar langt var liðið á uppbótartímann. Mario Balotelli steig fram og skoraði af miklu öryggi úr vítinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×