Fótbolti

Sandra María spennt fyrir leiknum gegn FC Zorkiy

Stefán Árni Pálsson skrifar
Í dag fer fram fyrri viðureign Þórs/KA og FC Zorkiy í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á Þórsvellinum og hefst leikurinn klukkan fjögur.

Sigurvegarinn í rimmunni kemst áfram í 16-liða úrslit og mætir þar annað hvort finnska liðinu PK-35 eða Birmingham frá Englandi.

Þór/KA hafnaði í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar á tímabilinu, heilum 24 stigum á eftir Stjörnunni sem varð Íslandsmeistari.

Seinni leikur liðanna fer fram ytra eftir eina viku. Glæsileg upphitun hefur verið fyrir leikinn á vefsíðunni thorsport.is

„Þetta er rosalega spennandi verkefni sem framundan er,“ sagði Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA í samtali við Þór TV.

„Það verður gaman að sjá hvernig okkur á eftir að ganga í Meistaradeildinni,“ sagði Sandra en Þór/KA mætti þýska liðinu Turbine Potsdam í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2011 og féll þá úr leik. Sandra María get ekki tekið þátt í síðari leiknum þar sem hún var í landsliðsverkefni með U-17 landsliði Íslands.

„Leikurinn leggst bara vel í okkur. Þetta er svona smá blanda af stressi og tilhlökkun.“

„Þetta leggst bara algjörlega stórkostlega í okkar,“ sagði Siguróli Kristjánsson, aðstoðarþjálfari Þórs/KA í samtali við Þór TV.

„Við munum vel eftir því þegar Potsdam kom í heimsókn og þetta verður ekkert síðra. Þær eru með hörkugott lið og verður skemmtilegt að mæta þeim. Það eina sem maður hefur áhyggjur af er að fólk þori ekki að mæta á völlinn vegna kulda.“

Hægt er að sjá viðtölin í heild sinni hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×