Körfubolti

Ítalir unnu Spánverja í framlengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Ítalir unnu fimm stiga sigur á Evrópumeisturum Spánverja, 86-81 í framlengdum leik í milliriðli á Evrópumótinu í körfubolta í Slóveníu í dag. Bæði liðin voru fyrir leikinn komin áfram í átta liða úrslitin en eru að berjast um efstu sætin í riðlinum.

Ítalir virtust vera búnir að kasta leiknum frá sér eftir að hafa verið 24-12 eftir fyrsta leikhlutann en frábær lokaleikhluti (25-14 fyrir Ítalíu) tryggði ítalska liðinu framlenginguna. Þar voru Ítalirnir sterkari og tryggðu sér fimm stiga sigur.

NBA-leikmaðurinn Marco Belinelli var með 16 stig og 8 fráköst fyrir ítala en stigahæsti maður liðsins var hinn tvítugi kraftframherji Alessandro Gentile með 25 stig.

Marc Gasol var langatkvæðamestur hjá spænska liðinu með 32 stig og 10 fráköst en Sergio Rodriguez skoraði 18 stig auk þess að gefa 6 stoðsendingar.

Fyrstu tveir leikir dagsins hafa endað í framlengingu því fyrr í dag unnu Króatar 92-88 sigur á Grikkjum eftir tvíframlengdan leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×