Körfubolti

Spánverjar í undanúrslitin eftir stórsigur á Serbum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjar voru í stuði í kvöld.
Spánverjar voru í stuði í kvöld. Mynd/AFP
Spánn tryggði sér sæti í undanúrslitum á áttunda Evrópumótinu í röð í kvöld þegar Spánverjar unnu 30 stiga sigur á Serbum, 90-60, í átta liða úrslitum EM karla í körfubolta í Slóveníu.

Spánverjar hafa unnið Evrópumeistaratitilinn undanfarin tvö mót og farið í úrslitaleikinn á þremur Evrópumótum í röð. Liðið hefur misstigið sig á þessu móti en er til alls líklegt ef marka má þessi úrslit í kvöld.

Sergio Rodriguez var stigahæstur í spænska liðinu með 22 stig en Rudy Fernandez skoraði 19 stig. Marc Gasol þurfti ekki að skila miklu í þessum leik en var með 7 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar á 22 mínútum. Ricky Rubio bætti við 5 stigum, 6 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Rasko Katic og Danilo Andjusic voru stigahæstir hjá Serbum með 11 stig hvor en Nenad Krstic var bara með 4 stig.

Spánverjar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru komnir í 10-2 eftir aðeins fjórar mínútur þar sem allir leikmenn liðsins voru búnir að eiga þátt í körfu. Spánn var síðan 16 stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 21-5, þar sem Rudy Fernandez var þegar búinn að skora 13 stig.

Spánverjar litu ekki til baka eftir þetta og voru sem dæmi komnir 25 stigum yfir í hálfleik, 48-23. Sigur spænska liðsins var því afar öruggur og aldrei í hættu.

Spánverjar mæta annaðhvort Slóveníu eða Frakklandi í undanúrslitunum á föstudaginn en þau tvö mætast seinna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×