Fótbolti

Jóhann Berg tryggði AZ sigur í Ísrael

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson var hetja hollenska liðsins AZ Alkmaar í kvöld í fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Jóhann Berg skoraði þá eina mark leiksins í 1-0 útisigri á ísraelska liðinu Maccabi Haifa.

Jóhann Berg hefur verið á skotskónum á undanförnu en flestum er það enn í fersku minni þegar skoraði þrennu fyrir Ísland í 4-4 jafntefli úti í Sviss. Jóhann Berg skoraði markið sitt á 71. mínútu í kvöld.

Jóhann Berg hefur verið öflugur í Evrópukeppninni á þessu tímabili því hann skoraði tvennu í 3-0 útisigri á gríska liðinu Atromitos í forkeppninni.

Jóhann Berg og Aron Jóhannsson voru báðir í byrjunarliði AZ í kvöld og þeir fengu líka að klára allar 90 mínúturnar.

PAOK vann 2-1 sigur á Shakhtyor Karagandy í hinum leik riðilsins og því eru Jóhann Berg og félagar ekki í efsta sæti riðilsins þrátt fyrir sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×