Körfubolti

Þjóðverjar töpuðu aftur og Bosníumenn risu upp frá dauðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Úkraína er búið að vinna þrjá fyrstu leiki sína á Evrópumótinu í körfubolta eftir fimm stiga sigur á Þýskalandi í dag, 88-83. Bosníumenn unnu á sama tíma sex stiga sigur á Svartfjallalandi, 76-70, eftir ótrúlega endurkomu í lokin þar sem liðið vann upp tólf stiga mun í fjórða leikhlutanum.

Þjóðverjar komu mörgum á óvart með því að vinna Frakka í fyrsta leik en hafa síðan tapað tveimur í röð, fyrst fyrir Belgíu í framlengingu í gær og svo á móti Úkraínu í dag. Úkraínumenn voru níu stigum yfir í hálfleik, 39-30, en Þjóðverjar komu til baka í seinni hálfleik og náðu að komast yfir í 74-73 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Úkraínska liðið fór þá aftur í gang og náði að landa sigrinum í lokin.

Bakvarðarparið Sergii Gladyr og Eugene Jeter voru með 44 stig saman fyrir Úkraínu, Gladyr skoraði 25 stig (fimm þristar) en Jeter var með 19 stig og 6 stoðsendingar. Heiko Schaffartzik var með 22 stig og 11 stoðsendingar fyrir þýska liðið og Robin Benzing skoraði 18 stig.

Bosníumenn fögnuðu sínum fyrsta sigri á mótinu eftir að unnu Svartfellinga 76-70. bosníska liðið var tólf stigum undir í upphafi fjórða leikhlutans, 49-61, en vann síðustu níu mínútu leiksins 27-9.

Mirza Teletovic var atkvæðamestur hjá Bosníu með 18 stig og 11 fráköst en Nemanja Gordic skoraði 17 stig. Bojan Dubljevic skoraði mest fyrir Svartfjallaland eða 16 stig en Tyrese Rice var með 13 stig. Þetta er annar leikurinn í röð sem Svartfjallaland missir frá sér í lokin en það gerðist einnig í eins stigs tapi á móti Lettland í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×