Körfubolti

Slóvenar áfram á sigurbraut á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Goran Dragic.
Goran Dragic. Mynd/AFP
Slóvenar eru í miklu stuði á heimavelli á Evrópumótinu í körfubolta en þeir unnu sinn þriðja leik í röð í kvöld. Slóvenía vann þá fjögurra stiga sigur á Georgíu í spennandi leik, 72-68.

Slóvenar komu á óvart með því að vinna Evrópumeistara Spánverja á fimmtudagskvöldið en þeir hafa einnig unnið Króata á þessu móti. Slóvenía er eina liðið í C-riðli með fullt hús en Króatar og Spánverjar hafa unnið tvo leiki hvor þjóð.

Leikir Slóvena fara fram í Dvorana Zlatorog höllinni í Celje í Slóveníu en íslenska handboltalandsliðið þekkir vel til stemmningarinnar sem getur myndast í þessari fimm þúsund manna höll.

Domen Lorbek skoraði 18 stig fyrir Slóvena í kvöld en bræðurnir Zoran Dragic (12 stig) og Goran Dragic (11 stig) voru líka í stórum hlutverkum. Ricky Hickman skoraði 19 stig fyrir Georgíu og Viktor Sanikidze var með 17 stig og 13 fráköst.

Grikkir unnu öruggan 23 stiga sigur á Tyrkjum, 84-61, í hinum leik kvöldsins en Yannis Bourousis skoraði 21 stig fyrir Grikki í kvöld. Grikkir hafa unnið alla þrjá leiki sína í D-riðlinum rétt eins og Ítalir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×