Körfubolti

Snæfell, KR, Skallagrímur og Haukar öll með tvo sigra í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Sjö leikir fóru fram í Lengjubikar karla í körfubolta í kvöld en körfuboltatímabilið er komið aftur að stað eftir sumarfrí. Lengjubikarinn fer að þessu sinni allur fram áður en Domninos-deildin byrjar í október.

Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, fór í DHL-höll þeirra KR-inga og náði þessum skemmtilegu myndum hér fyrir ofan.

Snæfell og KR hafa bæði unnið tvo fyrstu leiki sína í Lengjubikarnum en þau eru saman í D-riðli. Skallagrímur og Haukar hafa einnig unnið tvo fyrstu leiki sína en Borgnesingar eru að byrja tímabilið af krafti og fylgdu á eftir sigri á Hamar með því að vinna KFÍ í kvöld, 86-81.

Landsliðsmiðherjinn Stefán Karel Torfason var með 23 stig og 16 fráköst fyrir Snæfell í 123-73 sigri á Breiðabliki. Jón Ólafur Jónsson skoraði 19 stig á 16 mínútum og Finnur Atli Magnússon var með 18 stig. Sigurður Vignir Guðmundsson skoraði 20 stig fyrir Breiðablik.

Brynjar Þór Björnsson skoraði 23 stig í 84-78 sigri KR á ÍR í DHL-höllinni en Martin Hermannsson var með 20 stig og 5 stoðsendingar fyrir Vesturbæjarliðið. Pavel Ermolinskij lék sinn fyrsta leik með KR síðan 2011 og var með 14 stig, 7 fráköst og 7 stolna bolta. Terry Leake skoraði 20 stig fyrir ÍR-liðið.

Nýliðar Hauka hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í Lengjubikarnum en liðið vann 83-81 sigur á Þór í kvöld. Haukar voru með örugga forystu en Þórsarar voru nálægt því að stela sigrinum í lokin. Davíð Páll Hermannsson skoraði 26 stig fyrir Hauka en Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði 17 stig fyrir Þór.

Íslandsmeistarar Grindavíkur áttu ekki í miklum vandræðum með nýliða Vals í Röstinni og unnu öruggan 88-51 sigur. Jóhann Árni Ólafsson skoraði 16 stig fyrir Grindavík og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 11 stig.  Benedikt Blöndal, Rúnar Ingi Erlingsson og Oddur Birnir Pétursson skoruðu allir átta stig fyrir Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×