Fótbolti

Mourinho: Betra liðið tapaði í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, var svekktur í lokin.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, var svekktur í lokin. Mynd/NordicPhotos/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, var aðeins nokkrum sekúndum frá því að landa fyrsta titlinum í kvöld eftir að hann snéri aftur á Stamford Bridge þegar Chelsea tapaði í vítakeppni á móti Bayern München í leiknum um Ofurbikar Evrópu í Prag.

Bayern München jafnaði leikinn með síðustu spyrnu framlengingarinnar og vann síðan vítakeppnina 5-4. Mourinho var mjög stressaður á lokamínútunum og gat ekki leynt vonbrigðum sínum þegar Bayern jafnaði metin.

„Betra liðið tapaði. Þeir skoruðu tvö mörk og við skoruðu tvö mörk. Þeir skoruðu úr einni vítaspyrnu meira en við. Það er samt alveg á tæru að betra liðið í kvöld tapaði þessum leik," sagði Jose Mourinho við BBC.

„Við vorum betri þótt að við spiluðum lengi með tíu menn. Við vorum að mæta Evrópumeisturunum og mínir menn voru betri en þeir. Við höfum bara ástæður til að vera stoltir af þessum leik og hafa mikla trúa á því sem við getum gert í framtíðinni. Ég læt nægja að segja að betra liðið hafi tapað," sagði Mourinho.

Mourinho var ekki sáttur með að Ramires hafi fengið sitt annað gula spjald fyrir brot á Mario Götze en spjaldið virtist þó vera réttur dómur.

„Reglur eru reglur en mikilvægasta reglan er heilbrigð skynsemi. Dómarinn þarf að meta stöðuna og hvað er að fara að gerast í leiknum. Þegar dómari tekur samt svona ákvörðun þá er ég ekki viss um að hann elski fótbolta," sagði Jose Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×