Körfubolti

NBA ekki skemmtileg fyrr en í úrslitakeppninni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Arnór í leik með CAI Zaragoza.
Jón Arnór í leik með CAI Zaragoza. MYND/RAMÓN CORTÉSWWWCAISTAS.NET
Körfuknattleikskappinn Jón Arnór Stefánsson segist ánægður hvernig Íslendingar brugðust við hruni bankanna. Hann saknar ekki kuldans í Rússlandi og segist hafa orðið leiður á að fá ekkert að spila hjá Dallas Mavericks.

Jón Arnór er spurður spjörunum úr í viðtali á heimasíðu CAI Zaragoza. Jón Arnór er leikmaður spænska liðsins sem kom á óvart og fór alla leið í undanúrslit í sterkustu deildakeppni Evrópu á síðustu leiktíð.

Í viðtalinu er komið inn á þá staðreynd að Jón Arnór sé hluti af mikilli íþróttafjölskyldu þar sem bræður hans, Ólafur og Eggert, sköruðu fram úr í hinum boltaíþróttagreinunum.

„Ólafur er fremsti íþróttamaðurinn í fjölskyldunni ef miðað sé við árangurinn. Eggert er hins vegar besti íþróttamaðurinn, bæði ótrúlega sterkur og fljótur," segir Jón Arnór. Þá minnir hann blaðamann á systur sína, Stefaníu, sem skaraði fram úr í tennis á sínum tíma.

Jón Arnór hefur spilað sem atvinnumaður í sex löndum og segist hafa gaman af því að kynnast nýrri menningu. Aðspurður um eftirminnilega staði segir Jón Arnór:

„Rússland er öðruvísi. Þar spilaði ég bara körfubolta og ekki mikið að gera utan vallar. Það var kalt og sama gilti um fólkið. Hér á Spáni eru lífsgæðin mun meiri að öllu leyti. Lífið hér er yndislegt."

Jón Arnór var á sínum tíma á mála hjá Dallas Mavericks í NBA-deildinni.

„Ég var búinn að gleyma því," segir Jón Arnór og slær á létta strengi. Hann minnir á að langt sé liðið síðan en hann hafi samt skemmt sér virkilega vel.

„Ég hitti fyrir frábæra leikmenn en spilaði aldrei heldur æfði bara. Ég varð mjög fljótt þreyttur á því."

Jón Arnór segir lykilinn að árangri CAI Zaragoza vera hve góð liðsheildin sé. Leikmenn séu vinir en Jón Arnór ræddi þau mál við Fréttablaðið fyrr í sumar og sagðist aldrei hafa kynnst öðrum eins anda á atvinnumannaferlinum.

Jón Arnór og félagar fagna sætum sigri á Valencia í úrslitakeppninni í vor.Mynd/Twitter
Jón Arnór segist fylgjast með körfubolta en leiðist þó NBA-deildin þar til komið sé fram í úrslitakeppnina.

„Deildarkeppnin er leiðinleg og mjög hæg. Ég byrja ekki að horfa fyrr en í undanúrslitum og úrslitum í úrslitakeppninni."

Landsliðsmaðurinn segir að markmið CAI Zaragoza séu að komast í úrslitakeppnina og standa sig vel í bikarnum. Leikirnir í Evrópukeppninni (Eurocup) verði erfiðir en liðið muni gera sitt besta.

Þá er Jón spurður út í ástandið á Íslandi í kjölfar hrun bankanna haustið 2008. Margir hafi hrósað Íslandi fyrir hvernig staðið var að málum í kjölfar hrunsins.

„Ég er mjög ánægður hvernig staðið var að málum. Menn í fjármálaheiminum og stjórnmálamenn hegðuðu sér eins og glæpamenn. Fólkið þurfti að taka afleiðingunum en þeir voru látnir sæta ábyrgð. Þeim varð að refsa fyrir sinn hlut," segir Jón Arnór. Hann minnir þó á að Ísland sé fámennt land og fjárhagskerfið lítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×