Sport

Ekkert mikið mál fyrir Bolt - Heimsmeistari í 200 metra hlaupi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Usain Bolt.
Usain Bolt. Mynd/NordicPhotos/Getty
Jamaíkamaðurinn Usain Bolt vann öruggan sigur í 200 metra hlaupi karla á HM í frjálsum í Moskvu í dag en þetta er þriðja heimsmeistaramótið í röð þar sem Bolt vinnur þessa grein. Jamaíka vann tvöfaldan sigur í úrslitahlaupinu og var hársbreidd frá því að taka öll þrjú verðlaunin.

Usain Bolt vann einnig 100 metra hlaupið á HM í Moskvu og er því áfram ríkjandi Heims- og Ólympíumeistari í 100 og 200 metra hlaupi. Usain Bolt hefur nú unnuð þrettán gull á stórmótum, sex á Ólympíuleikum og nú sjö á Heimsmeistaramótum.

Usain Bolt kom í mark á 19.66 sekúndum og leyfði sér eins og vanalega að hægja á sér í lok hlaupsins. Landi hans Warren Weir kom annar í mark og Jamaíka vann því tvöfalt. Bandaríkjamaðurinn Curtis Mitchell fékk síðan bronsið. Jamaíkamaðurinn Nickel Ashmeade var aðeins hársbreidd frá því að tryggja fullt hús hjá Jamaíku í þessu hlaupi.

Bolt var með fjórða besta tímann í undanúrslitunum en það vissu flestir að það væri lítið að marka það eins og sást strax þegar hann stakk hina keppendurna af í beygjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×