Íslenski boltinn

Evrópumöguleikar Davíðs Þórs og Elfars Freys

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Samsett
Óhætt er að fullyrða að stærstu félagaskiptin í íslenskri knattspyrnu í dag, á lokadegi félagaskiptagluggans, sé heimkoma Elfars Freys Helgasonar í Breiðablik og Davíðs Þórs Viðarssonar í FH.

Elfar Freyr er snúinn aftur í raðir Kópavogsliðsins eftir tveggja ára fjarveru og skrifaði undir tveggja ára samning. Félagaskipti Elfars Freys hafa fengist staðfest á vef KSÍ sem bendir til þess að miðvörðurinn geti leikið með Blikum seinni leikinn gegn Aktobe frá Kasakstan í Evrópudeildinni.

Liðin mætast í fyrri leiknum í Kasakstan á morgun og eru Blikar mættir til Kasakstan. Skilafrestur á félagaskiptagögnum í forkeppni Evrópudeildarinnar og Meistaradeildarinnar er að kvöldi fyrir fyrri viðureign liða. Því ætti Elfar Freyr að vera klár í síðari leikinn í Kópavogi annan fimmtudag.

FH-ingar biðu lægri hlut 1-0 í fyrri leik sínum gegn Austria Vín í 3. umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu í gær. Davíð Þór, sem samdi við FH til ársins 2015, getur því ekki spilað síðari leikinn í Kaplakrika á fimmtudaginn. Hann verður þó gjaldgengur með FH í næstu Evrópuleikjum hvort sem um verður að ræða umspili um sæti í Meistaradeildinni eða Evrópudeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×