Fótbolti

Fá aðeins að selja helming miðanna gegn FH

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn Austria fagna meistaratitlinum í vor.
Leikmenn Austria fagna meistaratitlinum í vor. Mynd/Facebook.com/FKAustria
Generali-leikvangurinn í Vín, heimavöllur Austria Vín sem FH mætir í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á morgun, tekur 19,784 áhorfendur.

Samkvæmt reglum Knattspyrnusambands Evrópu má aðeins selja miða í sæti á leiki í keppnum á vegum sambandsins. Af þeim sökum geta heimamenn „aðeins" boðið upp á um tíu þúsund miða þegar Hafnfirðingar mæta í heimsókn á morgun.

Reglur UEFA ættu þó ekki að koma að sök hjá heimamönnum. 10,370 áhorfendur sáu Vínarslaginn gegn Rapid á síðustu leiktíð sem var mesti áhorfendafjöldi í deildinni. Meðalaðsóknin var 8,409 áhorfendur.

Tvær umferðir eru búnar af austurrísku deildarkeppninni. Austria vann sigur í fyrsta leiknum en tapaði svo 5-1 gegn Salzburg í 2. umferðinni.

FH-ingar flugu utan í fyrrinótt eftir 1-0 vinnusigur á Þórsurum í 13. umferð Pepsi-deildar karla á laugardaginn. Ljóst er að Albert Brynjar Ingason og Pétur Viðarsson verða ekki með FH-ingum í leiknum mikilvæga vegna meiðsla.

Fleiri leikmenn FH, t.d. Jón Ragnar Jónsson og Sam Tillen, eiga við smávægileg meiðsli að stríða. Vonir standa þó til að þeir geti beitt sér á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×