Fótbolti

Sungu um kjarnorkuslysið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Japanir fagna Kawashima eftir að hann varði vítaspyrnu Frank Lampard í vináttuleik Englands og Japan árið 2010.
Japanir fagna Kawashima eftir að hann varði vítaspyrnu Frank Lampard í vináttuleik Englands og Japan árið 2010. Nordicphotos/Getty
KR tekur á móti belgíska liðinu Standard Liege í fyrri leik liðanna í 2. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu annað kvöld. Í marki Standard stendur enginn annar en Eilji Kawashima, landsliðsmarkvörður Japana.

Kawashima hefur spilað í Belgíu undanfarin þrjú ár. Fyrst með Lierse en lék í fyrra sitt fyrsta tímabil með Standard og þótti standa sig vel.

Sá japanski á þó ekki eintómar sæluminningar frá veru sinni í Belgíu. Í leik með Lierse gegn Beerschot sumarið 2011 kölluðu stuðningsmenn andstæðinganna „Kawashima-Fukushima!" og vísuðu þar til kjarnorkuslyssins í Fukushima fyrr á árinu.

Gera varð hlé á leiknum um tíma en í leikslok yfirgaf Kawashami leikvöllinn með tár niður kinnarnar. „Ég get þolað ýmislegt en þarna var gengið of langt."

Svo fór að Beerschot var sektað fyrir framkomu stuðningsmannana og Kawashima var beðinn afsökunar líkt og sendiherra Japans í Belgíu.

Kawashima hefur verið mark Japana bæði á heimsmeistaramótinu í Suður-Afríku árið 2010 og í Álfukeppninni í sumar.

Leikur KR og Standard hefst á KR-velli klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×