Fótbolti

Enginn féll á lyfjaprófi í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, opinberaði í dag skýrslu um þau lyfjapróf sem voru tekin í leikjum Meistaradeildarinnar og Evrópudeildarinnar á síðasta keppnistímabili. Þar kemur fram að enginn knattspyrnumannanna var uppvís að notkun ólöglegra lyfja á leiktíðinni.

Alls voru gerð 1374 lyfjapróf eftir leiki í þessum tveimur stærstu keppnum sambandsins á síðustu leiktíð en þar af voru 813 þeirra tekin í Meistaradeildarleikjum.

UEFA notaði um leið tækifærið til að tilkynna það að á næsta tímabili verði meira um að blóðprufur verði notaðar í frekari mæli við lyfjapróf í stað þvagsýna. Hingað til hafa aðeins verið teknar blóðprufur í úrslitakeppni EM.

Lyfjaprófin á næsta tímabili verða framkvæmd hvar og hvenær sem er en þau verða ekki bundin við leikina sjálfa. Leikmenn gætu auk þess þurf að skila þvagsýni, blóðsýni eða jafnvel eitt af hvoru tagi.

UEFA er einnig að rannsaka betur sýni frá leikmönnum sem hafa verið lyfjaprófaðir oftar en þrisvar sinnum á síðustu árum. Sýnin verða borin saman með aðstoða WADA til að kanna betur steramagn í þeim sem og hvort einhver breyting hafi orðið þar á.

Það er ljóst á þessu að þrátt fyrir "góða" útkomu úr öllum lyfjaprófum á síðustu leiktíð þá ætlar Knattspyrnusamband Evrópu ekki að slaka á í lyfjaeftirliti sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×