Körfubolti

Jón Arnór: Náðum öllum okkar markmiðum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón Arnór í leiknum í kvöld. Hann gerði fimm stig fyrir Zaragoza.
Jón Arnór í leiknum í kvöld. Hann gerði fimm stig fyrir Zaragoza. Mynd / karfan.is

Jón Arnór Stefánsson og félagar í CAI Zaragoza hafa lokið keppni í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu en þeir töpuðu fyrir Real Madrid, 77-63, í þriðja leik liðanna í kvöld.

Real Madrid vann því þrjá fyrstu leiki einvígisins og því komið áfram í úrslitaeinvígið.

Heimamenn Zaragoza byrjuðu leikinn mjög vel og voru virkilega ákveðnir en í upphafi fjórða leikhlutans gerðu síðan þeir hvítklæddu út um leikinn og lauk honum með fínum sigri Real Madrid 77-63.  Jón Arnór Stefánsson gerði fimm stig fyrir CAI Zaragoza í leiknum.

„Við svona héldum í við þá fyrstu þrjá leikhlutana og vorum að spila vel,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, leikmaður CAI Zaragoza, í samtali við Vísi í kvöld.

„Maður hafði það samt í raun alltaf á tilfinningunni í seinni hálfleiknum að þeir myndu klára leikinn.“

„Heimvöllurinn hjálpaði okkur mikið í kvöld og þvílík læti í okkar áhorfendum allan leikinn. Það var löngu uppselt og frábært að spila í okkar höll.“

Real Madrid er stjörnuprýtt lið með valinn mann í hverju rúmi og leikmenn á heimsmælikvarða.

„Þetta lið er með gríðarlega mikla breidd og hefur verið að vinna NBA-lið á þeirra undirbúningstímabili. Það mætti því alveg gera ráð fyrir að lið eins og Real Madrid myndi standa sig vel í NBA-deildinni.“

„Við erum gríðarlega stoltir af tímabilinu okkar en við náðum öllum okkar markmiðum. Liðið mun taka þátt í Evrópukeppninni á næsta tímabili, sem er brábær árangur.“

Jón Arnór á eitt ár eftir af samningi sínum við CAI Zaragoza og mun að öllum líkindum verð áfram hjá liðinu.

„Ég á ár eftir af samningnum og verð áfram hjá liðinu, það eru spennandi tímar framundan hjá okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×