Fótbolti

Ég verð ekkert fúll þótt hann fari frá okkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty

Diego Simeone, þjálfari Atletico Madrid, virðist vera búinn að sætta sig við að kólumbíski framherjinn Radamel Falcao sé á förum frá spænska félaginu. Argentínski þjálfarinn ætlar í það minnsta ekki að fara í fýlu ákveði Falcao að leita annað.

Radamel Falcao er 27 ára gamall og er kominn með 34 mörk í 40 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili. Hann hefur verið orðaður við lið eins og Monaco, Manchester City og Chelsea. Falcao varð á dögunum spænskur bikarmeistari með Atletico en hafði unnið Evrópudeildina tvö tímabil þar á undan.

„Ég hef þekkt hann síðan hann var barn og ég óska honum alls hins besta í framtíðinni," sagði Diego Simeone sem hefur sjálfur gert frábæra hluti með lið Atletico Madrid.

„Ef hann telur best fyrir sig í stöðunni að fara annað þá verð ég ánægður fyrir hans hönd. Ég verð ekkert fúll þótt hann fari frá okkur en ég yrði líka ánægður ef hann ákveður að spila áfram með okkur," sagði Simeone.

Radamel Falcao hefur skorað yfir 30 mörk á undanförnum fjórum tímabilum (alls 142 mörk í 175 leikjum) með Porto (2009-11) og Atletico Madrid (2011-13) eða á öllum tímabilum sínum í evrópska boltanum. Hann kom til Porto frá River Plate árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×