Fótbolti

Fær Evrópudeildin Meistaradeildarsæti?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chelsea vann Evrópudeildina í ár en komst líka í Meistaradeildina í gegnum ensku úrvalsdeildina.
Chelsea vann Evrópudeildina í ár en komst líka í Meistaradeildina í gegnum ensku úrvalsdeildina. Mynd/NordicPhotos/Getty

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, mun tilkynna það á morgun, hvort að sigurvegarar í Evrópudeildinni vinni sér í framtíðinni sæti í Meistaradeildinni árið eftir. Þessi breyting er til umræðu sem hluti af þeirri viðleitni sambandsins að auka mikilvægi og áhuga á Evrópudeildinni.

Evrópudeildin stendur eins og er Meistaradeildinni langt að baki hvað varðar tekjuöflun og vinsældir en Evrópudeildin var sett af stað í núverandi formi árið 2009. UEFA hefur verið að leita leiða til þess að auka áhuga á Evrópudeildinni og stórt skref í þá átt var að breyta nafni keppninnar úr UEFA-bikarnum í Evrópudeildina.

Fari svo að Evrópudeildarmeistararnir vinni sér sæti í Meistaradeildinni árið eftir án þess að hafa verið í hópi þeirra liða sem tryggðu sér Meistaradeildarsæti í gegnum deildarkeppnina þá munu þeir ekki taka sætið af þeim liðum sem voru í fjórum/þremur/tveimur efstu sætunum í viðkomandi landi. Ein og sama þjóðin ætti því möguleika á að vera með fimm lið inn í Meistaradeildinni.  

UEFA ætlar að passa upp á það að sú staða komi ekki upp aftur eins og árið 2012 þegar Tottenham missti Meistaradeildarsæti sitt til Chelsea. Chelsea komst þá inn sem sigurvegari í Meistaradeildinni og tók þar með fjórða sætið af nágrönnum sínum.

Ákveði ráðamenn í UEFA að innleiða þessa breytingu munu Evrópudeildarmeistararnir árið 2016 verða þeir fyrstu sem fá Meistaradeildarsæti að launum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×