Fótbolti

Cruyff: Þetta er allt Mourinho að kenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Johan Cruyff.
Johan Cruyff. Mynd/Nordic Photos/Getty

Johan Cruyff, fyrrum leikmaður og þjálfari Barcelona, kennir Jose Mourinho algjörlega um hvernig fór hjá Real Madrid á þessu tímabili.

Real Madrid missti meistaratitilinn til Barcelona, tapaði bikarúrslitaleiknum á móti nágrönnum sínum í Atletico Madrid og datt út úr undanúrslitum Meistaradeildarinnar á móti Borussia Dortmund.

„Hegðun hans hafði slæm áhrif á alla í félaginu. Real Madrid er ekki með slakt lið og í raun eru þeir með mjög gott lið. Það er því allt Mourinho að kenna að liðið náði ekki betri árangri á þessu tímabili," sagði hinn 66 ára gamli Johan Cruyff sem hefur alltaf haft muninn fyrir neðan nefið.

Cruyff var einnig spurður út í möguleikann á því að Neymar spili við hlið Lionel Messi í sóknarlínu Barcelona á næstu leiktíð.

„Tvö stór egó í sama bát. Við verðum að læra af reynslunni," sagði Johan Cruyff og það var ekki að heyra annað en að hann hafi áhyggjur af því hvort þessir tveir frábæru fótboltamenn geti spilað saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×