Fótbolti

Fimm hundruð þúsund vilja fá miða á úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Bongarts
Borussia Dortmund tryggði sér sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrr í þessari viku og það er gríðarlega mikill áhugi hjá stuðningsmönnum félagsins á miðum á úrslitaleikinn á móti Bayern München sem fer fram á Wembley 25. maí næstkomandi.

Borussia Dortmund fær þó "aðeins" 24 þúsund miða á úrslitaleikinn en félagið hefur þegar fengið yfir 250 beiðnir um miða og forráðamenn félagsins búast við að sú tala muni tvöfaldast. Það þýðir að bara einn af hverjum tuttugu fær miða á leikinn.

Það eru næstum því 100 þúsund meðlimir í Borussia Dortmund og það er nær undantekningarlaus uppselt á leiki liðsins á Westfalenstadion.

Borussia Dortmund og Bayern München hita upp fyrir úrslitaleikinn á Westfalenstadion á morgun þegar liðin mætast í þýsku deildinni en þar hefur Bayern þegar tryggt sér titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×