Fótbolti

Forseti Bayern handtekinn fyrir skattsvik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Uli Höness, forseti Bayern München, var handtekinn af þýsku lögreglunni fyrri skattsvik í síðasta mánuði. Honum var svo sleppt gegn því að greiða fimm milljónir evra, 762 milljónir króna, í tryggingu.

Höness liggur nú undir grun fyrir að hafa stundað skattsvik í Þýskalandi með því að fela háar fjárhæðir í svissneska bankakerfinu.

Þýsk lög heimila aðilum með peninga í skattaskjólum að koma með þá heim án þess að þeim sé refsað, ef þeir stíga fram með upplýsingar um undanskot sjálfviljugir. Þeir þurfa þó að greiða af þeim skatta og sektir.

Það var það sem Höness gerði í byrjun þessa árs en handtakan gefur til kynna að ekki hafi verið allt með felldu í hans tilfelli. Málið hefur vakið talsverða athygli í Þýskalandi og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lýsti meðal annars vonbrigðum sínum með gjörðir Höness.

Sjálfur hefur hann viðurkennt að hafa gert mistök en að hann vilji bæta fyrir þau. Höness var viðstaddur þegar að Bayern vann 4-0 stórsigur á Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Höness gæti fengið fangelsisdóm verði hann ákærður og sakfelldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×