Körfubolti

Louisville og Michigan spila til úrslita

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Það verða lið Louisville og Michigan sem spila til úrslita í bandaríska háskólaboltanum í ár en þetta varð ljóst í nótt eftir að liðin unnu undanúrslitaleikina sem fóru fram í Georgia Dome höllinni í Atlanta. Úrslitaleikurinn fer síðan fram á sama stað á mánudagskvöldið.

Louisville vann 72-68 endurkomusigur á Wichita State en Wichita State var með tólf stiga forskot þegar rétt tæpar 14 mínútur voru til leiksloka. Luke Hancock kom með 20 stig inn af bekknum og annar varamaður, Tim Henderson, kveikti í liðinu með tveimur þristum í röð. Russ Smith var samt stigahæstur með 21 stig en aðalhetja liðsins, Peyton Siva, skoraði bara sjö stig og klikkaði á 8 af 9 skotum sínum.

Þetta er í sjöunda sinn sem Rick Pitino, þjálfari Louisville, kemur liði í úrslitaleik háskólaboltans en hann gerði Kentucky-skólann að meisturum 1996.

Michigan vann 61-56 sigur á Syracuse í hinum undanúrslitaleiknum en þetta er í fyrsta sinn síðan 1993 að Michigan-skólinn kemst alla leið í úrslitaleikinn eða síðan að þeir fimm fræknu léku með skólanum; Chris Webber, Jalen Rose, Juwan Howard, Jimmy King og Ray Jackson. Michigan var 11 stigum yfir í hálfleik, 36-25.

Tim Hardaway Jr, sonur NBA-goðsagnarinnar Tim Hardaway, var stigahæstur hjá Michigan með 13 stig auk þess að taka 6 fráköst og gefa 5 stoðsendingar en aðalhetjan í liði Michigan, Trey Burke, skoraði bara 7 stig og hitti aðeins úr 1 af 8 skotum sínum í leiknum. Glenn Robinson III, sonur NBA-leikmannsins Glenn Robinson, skoraði 10 stig fyrir Michigan og Mitch McGary var með 10 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×