Fótbolti

Arsenal áfram í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ellen White.
Ellen White. Mynd/Nordic Photos/Getty
Kvennalið Arsenal varð í dag fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta eftir að liðið sló út ítalska liðið Torres.

Arsenal vann fyrri leikinn 3-1 á heimavelli og var því í góðum málum. Liðið fylgdi því eftir með því að vinna 1-0 sigur í seinni leiknum á Sardiníu í dag. Enska liðið vann því samanlagt 4-1. Ellen White skoraði eina markið strax í leiknum í dag en það kom strax í upphafi leiks.

Arsenal-liðið var þarna að komast í undanúrslit Meistaradeildarinnar þriðja árið í röð en liðið vann Meistaradeildina 2007. Konurnar hafa komist lengra en karlaliðið undanfarin þrjú ár eða allt síðan bæði lið komust í átta liða úrslitin 2010. Karlaliðið datt úr úr 16 liða úrslitunum í ár.

Sara Björk Gunnarsdóttir, Þóra Björg Helgadóttir og félagar þeirra í sænska liðinu LdB Malmö eru svo gott sem úr leik eftir 5-0 tap í fyrri leiknum á móti Lyon. Seinni leikurinn fer fram í Malmö á morgun.

Kopparbergs/Göteborg frá Svíþjóð mætir franska liðinu Juvisy seinna í dag en þær frönsku unnu fyrri leikinn 1-0.

Lokaleikur átta liða úrslitanna er síðan á milli Rossiyanka frá Rússlandi og Wolfsburg frá Þýskalandi en Wolfsburg vann fyrri leikinn 2-1 á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×