Körfubolti

Njarðvíkingar með fjórða sigurinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Van.
Marcus Van. Mynd/Valli
Njarðvíkingar héldu áfram sigurgöngu sinni í Dominos-deild karla í körfubolta með því að vinna 25 stiga sigur á botnliði Fjölnis, 100-75. Fjölnir hefur nú tapað tíu leikjum í röð og er í mjög slæmum málum á botninum.

Njarðvíkurliðið hefur verið á miklu flugi eftir áramót en Njarðvíkingar hafa nú unnið fjóra deildarleiki í röð og alls sex af síðustu sjö leikjum sínum.

Njarðvík er nú komið upp að hlið KR í 6. sæti deildarinnar en KR er enn ofar á betri árangri í innbyrðisviðureignum liðanna.

Marcus Van var með tröllatvennu í Ljónagryfjunni í kvöld en hann skoraði 25 stig og tók 21 frákast. Elvar Már Friðriksson skoraði 18 stig og þeir Ágúst Orrason og Hjörtur Hrafn Einarsson voru báðir með 14 stig. Christopher Smith skoraði 22 stig og tók 12 fráköst fyrir Fjölni.

Njarðvíkingar komust í 11-2 og 16-7 í upphafi leiks og voru 20-14 yfir eftir fyrsta leikhlutann. Marcus Van skoraði 11 stig og tók 8 fráköst á fyrstu 10 mínútum leiksins.

Njarðvík bætti við í öðrum leikhlutanum sem liðið vann 30-16 og var því komið með tuttugu stiga forskot í hálfleik, 50-30. Elvar Friðriksson og Ágúst Orrason voru báðir með 12 stig í fyrri hálfleiknum þar af komu 21 af 24 stigum þeirra í öðrum leikhluta.

Njarðvík var með leikinn í öruggum höndum í seinni hálfleiknum og sigurinn aldrei í hættu.



Njarðvík-Fjölnir 100-75 (20-14, 30-16, 26-27, 24-18)

Njarðvík: Marcus Van 25/21 fráköst/3 varin skot, Elvar Már Friðriksson 18, Ágúst Orrason 14, Hjörtur Hrafn Einarsson 14/4 fráköst, Maciej Stanislav Baginski 9, Ólafur Helgi Jónsson 5, Óli Ragnar Alexandersson 5, Kristján Rúnar Sigurðsson 3, Nigel Moore 3/6 fráköst, Brynjar Þór Guðnason 2, Oddur Birnir Pétursson 2.

Fjölnir: Christopher Smith 22/12 fráköst/5 stoðsendingar/5 varin skot, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 16/8 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson 12/7 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 10, Isacc Deshon Miles 7/5 fráköst, Gunnar Ólafsson 5, Leifur Arason 2, Hjalti Vilhjálmsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×