Fótbolti

Messi fær sitt eigið orð í nýrri spænskri orðabók

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. Mynd/Nordic Photos/Getty
Lionel Messi er frábær fótboltamaður og oft vantar íþróttafréttamenn hreinlega orð til þess að lýsa snilli hans inn á vellinum. Nú er kappinn hinsvegar komið með sitt eigið lýsingarorð í spænska tungumálinu.

Það var Santillana-orðabókin sem kynnti nýja orðið í gær en Pepsi hefur einnig hafið markaðsátak til að kynna orðið í þeim löndum sem tala spænsku. Pepsi hefur verið stuðningsaðili Messi undanfarin fimm ár.

Nýja orðið er "Inmessionante" en tildrög þess má rekja til þess þegar Alejandro Sabella, þjálfari argentínska landsliðsins, kallaði eftir orði til að lýsa snilli Messi eftir að leikmaðurinn skoraði tvö mörk í sigri á nágrönnunum í Úrúgvæ í október síðastliðnum.

Inmessionante hefur tvær þýðingar í nýju spænsku orðabókinni. Í fyrsta lagi lýsir það fullkominni leið til að spila fótbolta og jafnframt endalausri hæfni til að bæta sinn leik. Í öðru lagi lýsir það besta fótboltamanni í heimi.

Hvort við Íslendingar fáum einhvern tíma sagnirnar að Kolbeinast eða Gylfast er aftur á móti allt önnur saga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×