Formúla 1

Ferrari og Force India frumsýndu í dag

Birgir Þór Harðarson skrifar
Nýi Ferrari-bíllinn heitir F138.
Nýi Ferrari-bíllinn heitir F138. nordicphotos/afp
Ferrari-liðið svipti hulunni af nýja keppnisbíl liðsins sem þeir Fernando Alonso og Felipe Massa munu aka í sumar. Bílinn kalla þeir F138 og er hann þróaður út frá hönnun bílsins sem notaður var í fyrra.

Afturendi bílsins hefur verið endurhannaður til þess að hægt væri að útfæra pústkerfið á annan hátt en gert var í fyrra. Þá hefur loftinntökunum verið breytt til þess að auka virkni loftflæðisins yfir bílinn.

Ferrari-liðið notaði vindgöng Toyota í Köln í Þýskalandi til þess að fikra sig áfram í tengslum við loftaflið en verið er að betrumbæta vindgöng liðsins í Maranello á Ítalíu.

Force India-liðið frumsýndi einnig bílinn sinn í dag. Þá hafa fjögur lið frumsýnt bíla sína og eru tilbúin til að hefja æfingar á þriðjudaginn í næstu viku. Enn er óvíst hver mun aka við hlið Paul di Resta í sumar.

Bílar Ferrari og Force India eiga það sameiginlegt að hafa ekki tröppu fyrir aftan framtrjónu bílanna. Bæði lið notuðu þá útfærslu í fyrra en hún fór illa í aðdáendur Formúlu 1. Lotus-liðið er eitt þeirra liða sem þegar hafa frumsýnt keppnisbíla sína fyrir árið 2013 sem halda sig við tröppuna.

Það að trappan sé horfin á bílum Ferrari og Force India þýðir aðeins að yfirbygging bílsins hefur verið lækkuð. McLaren var eitt þeirra liða, utan Marussia, sem hafði ekki tröppu á bíl sínum í fyrra. Þeir hækkuðu aftur á móti yfirbyggingu MP4-28 bílsins án þess þó að þurfa að nota tröppuna.

Di Resta mun aka fyrir Force India í sumar en ekki er víst hver mun aka við hlið hans.nordicphotos/afp
Ferrari-bíll ársins er glæsilegur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×