Fótbolti

Xavi samdi til 2016

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Barcelona staðfesti í dag að Xavi Hernandez hafi skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir til loka tímabilsins 2016.

Xavi er 33 ára gamall og hefur verið einn besti miðjumaður heims síðastliðin ár. Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með bæði Barcelona og spænska landsliðinu.

Hann hefur spilað með Barcelona alla sína tíð en hann er fæddur og uppalinn í borginni. Hann kom inn í La Masia-akademíu Barcelona ellefu ára gamall, árið 1991.

Hans fyrsti leikur með aðalliði Barcelona var í æfingaleik gegn Southampton árið 1998. Hann spilaði sinn fyrsta keppnisleik síðar þetta sama ár og var fljótur að vinna sér fast sæti í liði Börsunga.

Hann hefur spilað tæplega 700 leiki með Barcelona í öllum keppnum og er útlit fyrir að hann muni ekki spila fyrir annað félag á sínum ferli. Hann verður 36 ára gamall þegar samningurinn rennur út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×