Fótbolti

Müller gleðst með Lionel Messi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Messi missti sig ekkert í fögnuðinum er hann sló metið.nordicphotos/getty
Messi missti sig ekkert í fögnuðinum er hann sló metið.nordicphotos/getty
Það var söguleg stund í heimsfótboltanum á sunnudag er Lionel Messi setti ótrúlegt met. Þá sló hann markamet Þjóðverjans Gerd Müller yfir flest mörk á einu ári. Müller skoraði 85 mörk á sínum tíma en tvö mörk Messi gegn Real Betis komu honum í 86 mörk á þessu ári. Hann á enn eftir að spila tvo leiki á árinu.

„Metið mitt stóð í 40 ár. 85 mörk í 60 leikjum. Nú er besti leikmaður heims búinn að slá það met. Ég get ekki annað en glaðst með honum. Hann er ótrúlegur leikmaður," sagði auðmjúkur Müller við þýska fjölmiðla.

Þegar Müller setti metið árið 1972 þá var hann 27 ára gamall. Hann skoraði 72 mörk fyrir Bayern München og 13 fyrir landslið Vestur-Þýskalands.

„Messi er svo indæll og algjör fyrirmyndaratvinnumaður. Ég vona að hann skori fleiri mörk og haldi metinu næstu 40 árin. Hann er ótrúlegur og það eina sem ég get kvartað yfir er að hann skuli ekki spila með Bayern," sagði Þjóðverjinn léttur.

Messi er aðeins 25 ára gamall og hefur þrisvar sinnum verið valinn besti knattspyrnumaður heims. Hann gæti fengið þau verðlaun í fjórða skiptið í janúar. Hann er tilnefndur ásamt Cristiano Ronaldo og Andres Iniesta.

„Ég mun reyna að skora fleiri mörk og gera mönnum erfitt fyrir að slá þetta met," sagði Messi og hrósaði síðan liðsfélögum sínum af sinni alkunnu hógværð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×