Menning

250 þúsund seld í Frakklandi

Freyr Bjarnason skrifar
Arnaldur Indriðason nýtur mikilla vinsælda í Frakklandi.
Arnaldur Indriðason nýtur mikilla vinsælda í Frakklandi.
Glæpasagan Myrká eftir Arnald Indriðason hefur notið mikilla vinsælda í Frakklandi frá því hún kom út í vasabroti síðastliðið vor og hefur selst í 250 þúsund eintökum á fáeinum mánuðum.

Bókin heitir á frönsku La rivière noire. Hún flaug beint inn á vinsældalistann við útgáfu og var í sautján vikur samfleytt í einu af tíu efstu sætunum. Áður hafði innbundna útgáfan trónað á toppi metsölulista yfir glæpasögur þar í landi.

Von er á Bettý eftir Arnald í vasabroti í Frakklandi í næsta mánuði og í febrúar verður bókin Furðustrandir gefin þar út innbundin. Það verður tíunda bókin sem kemur út eftir hann í Frakklandi.

Vinsældir bóka Arnaldar á erlendri grund fara stigvaxandi en nú hafa á áttundu milljón bóka hans selst á heimsvísu. Arnaldur var valinn einn af tíu bestu núlifandi glæpasagnahöfundum í Evrópu af Guardian á síðasta ári og var þar meira að segja efstur á blaði.

Ný bók eftir Arnald, Reykjavíkurnætur, er nýkominn út en hún fjallar um fyrsta mál lögreglumannsins Erlendar Sveinssonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.