Skoðun

Skiptar skoðanir um stjórnarskrá

Salvör Nordal og Ari Teitsson skrifar
Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október hefur sem betur fer orðið veruleg umræða um frumvarp stjórnlagaráðs. Margir sem voru fulltrúar í stjórnlagaráði hafa látið til sín taka eins og eðlilegt er og gerir það hver og einn á eigin forsendum enda lauk stjórnlagaráð störfum á miðju sumri 2011.

Skoðanir ráðsmanna á atkvæðagreiðslunni, einstökum spurningum og því hvað taki við eru augljóslega verulega skiptar. Pawel Bartoszek segist ekki munu greiða frumvarpinu atkvæði sitt nú vegna þess að það er ekki fullbúið en Þorvaldur Gylfason telur að í framhaldi af atkvæðagreiðslunni hafi Alþingi ekki heimild til að gera annað en minniháttar orðalagsbreytingar á frumvarpinu.

Við lokaafgreiðslu í stjórnlagaráði sumarið 2011 greiddu sannarlega allir fulltrúar ráðsins atkvæði með frumvarpinu en engu að síður voru skoðanir skiptar um margt eins og hæglega má sjá í fundargerðum ráðsins t.d. um atkvæðagreiðslur um einstakar greinar. Í atkvæðaskýringum sumra fulltrúa kom m.a. fram að þeir litu ekki á frumvarpið sem endanlegt plagg heldur væntu þeir þess að Alþingi tæki það til ýtarlegrar umræðu og lögfræðilegrar greiningar. Nú stendur sú greining yfir en mun, því miður, ekki ljúka eða vera gerð opinber fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Þótt tímasetning atkvæðagreiðslunnar og orðalag spurninga í kosningunum 20. október sé alls ekki hafin yfir gagnrýni, hafa fyrirhugaðar kosningar kallað fram mikla umræðu um stjórnarskrána.

Innan stjórnlagaráðs voru skiptar skoðanir á því við starfslok hvernig best væri að Alþingi tæki á frumvarpinu og hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla væri tímabær. Það var ekki stjórnlagaráðs að ákveða heldur Alþingis sem samkvæmt gildandi stjórnarskrá ber allar skyldur til að virða réttar leikreglur.

Alþingi Íslendinga ákvað atkvæðagreiðsluna og þær spurningar sem lagðar verða fyrir kjósendur um næstu helgi. Eftir kosningar kemur það í hlut Alþingis að túlka niðurstöður þeirra og ákveða næstu skref í málinu. Það er því fyrst og fremst skylda alþingismanna að skýra fyrir kjósendum nú í aðdraganda kosninga hvað þeir höfðu í huga með einstökum spurningum og hvernig þeir muni túlka svör við einstökum spurningum og samspil þeirra. Stjórnlagaráð ræður þar engu því þegar öllu er til skila haldið ber Alþingi ábyrgð á breytingum á stjórnarskránni.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×