Innlent

Moka upp síld eftir tregveiði

Vopnafjörður Síðustu síldarfarmarnir eru að skila sér til vinnslu eystra.
mynd/jón sigurðarson
Vopnafjörður Síðustu síldarfarmarnir eru að skila sér til vinnslu eystra. mynd/jón sigurðarson
Eftir tregveiði á síldarmiðunum um síðustu helgi og í byrjun vikunnar tók veiðin mikinn kipp á þriðjudagskvöld. Þá fannst síld út af Héraðsflóadjúpi, um 90 sjómílur frá Vopnafirði.

Skip HB Granda, Lundey NS, kom í höfn á Vopnafirði með um 570 tonna afla sem fékkst í tveimur holum með Ingunni AK. Að sögn Kristjáns Þorvarðarsonar, stýrimanns á Ingunni, fengust til dæmis rúmlega 800 tonn í tveimur holum.

„Það var mikill kraftur í veiðunum og það þurfti ekki að toga lengi til að fá góðan afla," segir Kristján en að hans sögn er greinilegt að síldin er á hraðferð í austurátt og því verður þess vart lengi að bíða að veiðin innan íslenskrar lögsögu detti niður að nýju.

Það skiptir skip HB Granda þó litlu máli því í gær voru aðeins óveidd um 800 til 900 tonn af norsk-íslenska síldarkvóta félagsins.

„Þetta var okkar síðasta veiðiferð á vertíðinni hvað varðar norsk-íslensku síldina. Eftir löndun á Vopnafirði förum við suður og mér skilst að skipið fari í slipp. Síðan er stefnan sett á veiðar á íslensku sumargotssíldinni um miðjan októbermánuð," segir Kristján. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×