Erlent

Börn eru fangelsuð, pyntuð og myrt

Skotinn Leyniskytta skaut drenginn hér að ofan í borginni Aleppo í Sýrlandi á föstudaginn var. Drengurinn grætur á sjúkrahúsinu þar sem gert er að sárum hans. Nordicphotos/AFP
Skotinn Leyniskytta skaut drenginn hér að ofan í borginni Aleppo í Sýrlandi á föstudaginn var. Drengurinn grætur á sjúkrahúsinu þar sem gert er að sárum hans. Nordicphotos/AFP
Sýrland Sýrlensk börn upplifa fjöldamorð, pyntingar og önnur voðaverk, að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá Barnaheill – Save the Children.

„Börn eru skotmörk í grimmilegum árásum og upplifa dráp á foreldrum, systkinum og öðrum börnum, auk þess að vera vitni að pyntingum, eða verða sjálf fórnarlömb pyntinga," segir í tilkynningu samtakanna. Vísað er til frásagna barna frá Sýrlandi sem rætt hafa við hjálparstarfsmenn í flóttamannabúðum í Jórdaníu og Líbanon.

Haft er eftir Héðni Halldórssyni, upplýsingafulltrúa alþjóðahluta Barnaheilla í Amman í Jórdaníu, að hann hafi rætt við börn og unglinga sem greini frá margvíslegum voðaverkum, eða hvernig þau hafi orðið vitni að því að önnur börn, allt niður í níu ára aldur, hafi verið pyntuð eða myrt. „Vitnisburð þessara barna er ekki hægt að sannreyna fyrr en alþjóðasamtök fá fullan aðgang að Sýrlandi, en þetta er það sem starfsfólk okkar heyrir á hverjum einasta degi," segir hann.

Barnaheill standa þessa dagana fyrir söfnun vegna ástandsins í Sýrlandi. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×