Fótbolti

Forseti Barcelona vill semja við Messi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi hefur átt magnaðan feril hjá Barcelona.
Lionel Messi hefur átt magnaðan feril hjá Barcelona. nordicphotos/getty
Sandro Rosell, forseti Barcelona, greindi frá því í gær að félagið væri nú að undirbúa nýtt samningstilboð fyrir argentínsku stórstjörnuna Lionel Messi.

Messi er 25 ára og er þegar samningsbundinn félaginu til 2016. Rosell vill enga áhættu taka og vill tryggja að Messi verði sem lengst hjá félaginu – helst þangað til hann ákveður að leggja skóna á hilluna.

„Samningurinn er til 2016 en það væri óábyrgt af okkur að bæta ekki samningskjör hans," sagði Rosell við spænska fjölmiðla í gær. „Það er ekki búið að tímasetja neinar viðræður en svona mál eru í stöðugri vinnslu og hlutirnir geta breyst fyrirvaralaust."

Messi er uppalinn hjá Barcelona en þangað kom hann aðeins tólf ára gamall. Hann hefur því búið á Spáni meirihluta ævi sinnar en Messi hefur átt magnaðan feril með félaginu og unnið allt sem hægt er að vinna.

„Þjálfararnir hugsa um næsta leik en við þurfum að hugsa lengra fram í tímann. Við þurfum að hefja vinnu við nýjan samning undir eins," bætti Rosell við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×