Íslenski boltinn

Förum til Noregs til þess að vinna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna hér fyrra marki liðsins sem Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði. Fanndís Friðriksdóttir skoraði hitt markið.fréttablaðið/daníel
Íslensku stelpurnar fagna hér fyrra marki liðsins sem Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði. Fanndís Friðriksdóttir skoraði hitt markið.fréttablaðið/daníel
Ísland vann um helgina virkilega mikilvægan sigur, 2-0, á Norður-Írum í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu kvenna sem fram fer árið 2013 í Svíþjóð.

Íslenska liðið er í efsta sæti riðilsins með 22 stig, einu stigi á undan Noregi en þessi lið mætast einmitt í lokaleik riðilsins á Ullevål-vellinum í Ósló á miðvikudagskvöldið. Íslandi nægir jafntefli í leiknum til að komast á Evrópumótið en liðið hefur nú þegar tryggt sér umspil um laust sæti.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari var ánægður eftir leikinn gegn Norður-Írum og fullur sjálfstrausts fyrir úrslitaleikinn á Ullevål-vellinum á miðvikudaginn.

„Við spiluðum vel í dag og réðum ferðinni allan leikinn," sagði Sigurður Ragnar eftir leikinn á laugardaginn.

„Norður-írska liðið getur refsað manni illa og við vissum það fyrir leikinn í dag en þær unnu til að mynda norska liðið í riðlinum og sýndu með því mikinn styrk. Alveg frá byrjun hefur það verið markmið okkar að vinna þennan riðil og það ætlum við okkur að gera á miðvikudaginn. Við teljum okkur vera með betra lið en það norska og förum í þann leik til að vinna."

„Við gáfum ekki færi á okkur í dag og sigurinn var aldrei í hættu," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, eftir leikinn á laugardaginn.

„Við förum í leikinn úti í Noregi með það markmið að halda markinu okkar hreinu, við skorum alltaf mörk og ég hef engar áhyggjur af því. Við erum með betra lið en þær norsku og ætlum okkur að komast á Evrópumótið í Svíþjóð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×