Innlent

Óvíst um framsal Sverris

Sverrir þór gunnarsson
Sverrir þór gunnarsson

Ekki er í gildi framsalssamningur við Brasilíu og því óvíst að hægt yrði að fá Sverri Þór Gunnarsson framseldan hingað þrátt fyrir að hann sé grunaður um glæpi hér. Ekki borist formleg staðfesting á nafni hans.

Ekki er víst að hægt verði að fá Sverri Þór Gunnarsson, sem er einnig þekktur sem Sveddi tönn, framseldan til Íslands þrátt fyrir að íslensk lögregluyfirvöld hafi hann grunaðan um afbrot hér á landi og hafi nóg í höndunum til að draga hann hér fyrir dóm, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Ekki er í gildi framsalssamningur milli landanna tveggja, auk þess sem brasilísk yfirvöld kynnu að vera treg til að senda til Íslands mann sem gerst hefði sekur um stórfellt fíkniefnabrot þar ytra.

Sverrir, sem íslensk lögregla hefur haft í sigtinu um árabil, var handtekinn á mánudag á Galeão-alþjóðaflugvellinum í Rio de Janeiro, grunaður um að tengjast smygli á 46 þúsund e-töflum til landsins frá Lissabon. Smyglið er eitt hið stærsta sinnar tegundar í lengri tíma í Brasilíu.

Sverrir villti á sér heimildir við komuna til landsins og þóttist vera 43 ára Breiðhyltingur sem reyndist ekki sitja í haldi lögreglu þar ytra þegar íslensk yfirvöld fóru að grennslast fyrir um málið.

Íslenskum yfirvöldum hefur enn ekki borist formleg staðfesting á því að maðurinn sem handtekinn var sé Sverrir Þór, en það þykir þó liggja fyllilega ljóst fyrir af myndum úr brasilískum fréttum.stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×