Fótbolti

Messi skorað jafnmikið og sóknarþríeyki Real Madrid til samans

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Messi og Ronaldo.
Messi og Ronaldo. Nordicphotos/Getty
Knattspyrnukappinn Lionel Messi hefur verið á forsíðum blaða og vefmiðla um heim allan undanfarna viku.

Messi bætti á dögunum 40 ára gamalt markamet Þjóðverjans Gerd Müller sem skoraði 85 mörk árið 1972. Messi hefur nú skorað 88 mörk á tímabilinu og getur enn bætt um betur.

Dagblaðið Sport í Katalóníu birti í vikunni samanburð á markaskorun Argentínumannsins og sóknarþríeykis Real Madrid sem Cristiano Ronaldo, Gonzalo Higuain og Karem Benzema skipa.

Messi hefur skorað 23 mörk í spænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Ronaldo hefur skorað 16 mörk, Higuain 4 mörk og Benzema þrjú. Messi hefur því skorað jafnmörg mörk og þremenningarnir til samans.

Hafa verður í huga að Benzema og Higuain hafa verið töluvert frá vegna meiðsla á tímabilinu.

Sport bendir hins vegar á að Lionel Messi hafi komið ungur að árum til liðsins og Barcelona ekki greitt fyrir hann krónu. Hins vegar hafi Spánarmeistararnir borgað samanlagt 147 milljónir evra (94 milljónir fyrir Ronaldo, 13 milljónir fyrir Higuain og 40 milljónir fyrir Benzema) eða sem nemur rúmum 24 milljörðum íslenskra króna.

Vert er að taka fram að Sport er duglegt að halda á lofti merki Börsunga þegar vel gengur. Sömuleiðis fer dagblaðið Marca á flug þegar Real Madrid gengur allt í haginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×