Fótbolti

Mourinho: Deildinni svo gott sem lokið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mourinho hafði um nóg að hugsa í varamannaskýlinu á Bernabeu í gær.
Mourinho hafði um nóg að hugsa í varamannaskýlinu á Bernabeu í gær. Nordicphotos/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Real Madrid, segir að það sé nánast útilokað að liðið verji Spánarmeistaratitil sinn. Real Madrid gerði jafntefli gegn botnliði Espanyol á heimavelli í gær 2-2.

„Það er í raun og veru útilokað," sagði Mourinho um möguleika liðsins á að ná Börsungum að stigum. Barcelona lagði Atletico Madrid 4-1 á heimavelli í gær. Liðið hefur níu stiga forskot á Atletico en þrettán stigum munar á Real og Börsungum.

„Bilið er of mikið. Á síðasat ári höfðum við tíu stiga forskot í febrúar eða mars og náðum að halda því. En takist okkur að bæta leik okkar í deildinni mun það koma sér vel í Meistaradeildinni," sagði Portúgalinn en Real er komið í sextán liða úrslit í Meistaradeild Evrópu.

Real beið lægri hlut gegn Celta Vigo í fyrri leik liðanna í spænska bikarnum í síðustu viku. Eftir jafnteflið í gær var Mourinho þungt hugsi.

„Ég hef aldrei upplifað aðstæður sem þessar. Tapa svo mörgum stigum og stýra liði sem er svo fjarri markmiðum sínum," sagði Portúgalinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×