Fótbolti

Barcelona slátraði Böskunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Barcelona vann 5-1 sigur á Athletic Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn á Nývangi var einstefna af hálfu Börsunga. Miðvörðurinn Gerard Piqué kom þeim yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og þremur mínútum síðar slapp Lionel Messi einn í gegnum vörn gestanna.

Argentínumaðurinn lyfti boltanum yfir markvörð gestanna og í markinu hafnaði hann þrátt fyrir að Fernando Amorebieta, varnarmaður Athletic, gerði heiðarlega tilraun til þess að bjarga marinu. Óvíst er á þessari stundu hvort Messi fái markið skráð eða hvort sjálfsmark verði niðurstaðan.

Adriano bætti við þriðja markinu í viðbótartíma í fyrri hálfleik eftir sendingu frá Cesc Fabregas. Staðan 3-0 í hálfleik og björninn unninn.

Cesc Fabregas bætti við fjórða marki Börsunga eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik eftir frábæran undirbúning Andres Iniesta. Ibai Gómez minnkaði muninn fyrir gestina um miðjan hálfleikinn.

Þá var komið að Argentínumanninum Lionel Messi. Hann skoraði 83 mark sitt á árinu með frábæru hægri fótar skoti úr teignum og vantar nú aðeins tvö mörk upp á að jafna markamet Þjóðverjans Gerd Müller.

Með sigrinum setti Barcelona met í spænskri knattspyrnusögu. Ekkert lið hefur byrjað leiktíðina betur en Börsungar hafa 40 stig að loknum fjórtán leikjum.

Metið var í eigu Real Madrid frá því tímabilið 1961-62. Madrídingar fengu þá 39 stig úr 14 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×