Fótbolti

Ronaldo í aðalhlutverki þegar Real Madrid lagði litla bróður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Cristiano Ronaldo skoraði eitt mark og lagði upp annað í öruggum 2-0 heimasigri Real Madrid á Atletico Madrid í stórleik helgarinnar í spænska boltanum.

Atletico Madrid hafði ekki lagt Real Madrid að velli í 13 ár fyrir leikinn í dag. Liðið hafði þó aðeins tapað einum leik í deildinni og í harðri baráttu við Barcelona í toppbaráttunni. Því reiknuðu margir með því að gestirnir gætu strýtt heimamönnum en það kom aldrei til þess.

Cristiano Ronaldo kom heimamönnum yfir á 16. mínútu með stórkostlegu marki úr aukaspyrnu. Gestunum tókst aðeins einu sinni að ógna marki heimamanna í fyrri hálfleik en Iker Casillas varði þá vel á nærstöng frá Radamel Falcao.

Síðari hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri. Heimamenn réðu ferðinni og fengu stöng og slá að kenna á bylmingsskotum Ronaldo áður en liðsmenn Real tvöfölduðu forystuna. Ronaldo sendi þá boltann á Mesut Özil sem setti boltann á milli fóta Courtouis í marki gestanna.

Gestirnir gerðu sig aldrei líklega til að minnka muninn og lærisveinar Diego Simeone fara því heim til sín með skottið á milli lappanna.

Stuðningsmenn Barcelona geta aldrei þessu vant fagnað sigri Real Madrid. Barcelona hefur nú sex stiga forskot á Atletico Madrid en forystan á Real, sem er í þriðja sæti, er ellefu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×