Erlent

Einmana Georg var ekki einn

Í ljós er komið að ein tegund af risaskjaldbökum dó sennilega ekki út í sumar þegar hin yfir 100 ára gamla risaskjaldbaka Einmanna George drapst á Galapagos eyjum. Vísindamenn hafa nú fundið 17 slíkar skjaldbökur á lífi á einni af eyjunum.

Það voru vísindamenn við Yale háskólann sem fundu þessar risaskjaldbökur í grennd við eldfjall á Isabella eyjunni. Erfðafræðilega líkjast þær mjög Einmanna George sem á sinni tíð varð tákn um náttúruvernd á eyjunum sem og tákn fyrir baráttuna í að viðhalda dýrategundum sem eru í útrýmingarhættu.

Nú eru uppi áætlanir um að einangra þessar 17 risaskjaldbökur og reyna þannig að ná stofni þeirra upp að nýju.

Vísindamenn telja að um 300.000 risaskjaldbökur hafi verið á Galapagos eyjum áður en þær fundust á 18. öld. Taumlaus rányrkja sjóræningja og hvalveiðimanna gerði það síðan að verkum að þessar skjaldbökur dóu meir og minna út þar til talið var að aðeins ein þeirra, Einmanna George, væri eftir á lífi fyrir 40 árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×